Forsendur kjarasamninga á almennum vinnnumarkaði sem gerðir voru í maí 2011 eru í meginatriðum fjórar: Kaupmáttur þarf að hafa vaxið, verðlag hafa verið stöðugt, gengi krónunnar styrkst marktækt og stjórnvöld staðið við gefin fyrirheit. Kaupmáttur hefur vaxið umtalsvert og verðbólga hefur farið minnkandi eftir verðbólguskot á fyrstu mánuðunum í fyrra. Gengi krónunnar hefur lítið styrkst en innflæði af erlendu fjármagni vegna fjárfestinga er helsta forsendan fyrir styrkingu hennar og hefur ekki gengið eftir. Sé eingöngu litið til þessara þriggja þátta í samhengi er ekkert tilefni til endurskoðunar kjarasamninga. Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, m.a. í leiðara nýs fréttabréfs samtakanna.

Vilhjálmur segir raunverulegt tilefni til opnunar kjarasamninga vegna sérlega slakrar frammistöðu ríkisstjórnarinnar. Hann segir getuleysi ríkisstjórnarinnar við að efna mikilvæga þætti yfirlýsingar sinnar í tengslum við kjarasamningana á engan hátt ásættanlegt. „Ríkisstjórnin hefur úrslitaáhrif á starfsskilyrði atvinnulífsins og hún hefur ekki nema að mjög litlu leyti viljað vinna með atvinnulífinu til að koma málum í betra horf. Þvert á móti hafa verið lagðar og eru boðaðar þungar nýjar álögur á atvinnulífið og vinnumarkaðinn."

Lesa má leiðarann í heild sinni á vefsíðu SA .