Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, hefur ákveðið að stíga til hliðar í skugga alvarlegra erfiðleika í rekstri hjúkrunarheimilisins Eirar. Reksturinn er í járnum; hjúkrunarheimilið skuldar Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðum sex milljarða króna og íbúum Eirar tvo milljarða.

Í yfirlýsingu sem Vilhjálmur sendi frá sér í kvöld segir hann margt skýra stöðuna. M.a sé um að ræða afleiðingar efnahagshrunins og seinkun framkvæmda um nokkur ár á byggingu þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar við Eirborgir sem hefur gert það að verkum að erfiðar reyndist að ráðstafa íbúðum í Eirborgum. Í fyrra voru rúmlega 50 íbúðir lausar í Eirborgum en nú eru þær 30. Þá segir hann stjórn Eirar og starfsmenn félagsins hafa unnið af fullum heilindum frá miðju síðasta ári að því að draga úr vandanum með verulegum hagræðingaraðgerðum. Það hafi ekki dugað til.

Stjórnin ber ábyrgð á stöðunni

VIlhjálmur heldur áfram:

„[...] þegar upp er staðið ber stjórn félagsins endanlega ábyrgð á þeirri stöðu sem hún stendur andspænis. Fulltrúaráðsfundur Eirar verður haldinn í nóvember og þar verður gerð ítarleg grein fyrir stöðunni, með hvaða hætti stjórnin hefur brugðist við þessum vanda, ekki síst stöðu búseturétthafa. Við slíkar aðstæður standa gild rök til þess að stjórnin segi af sér. Það eru líka gild rök fyrir því að hún hopi ekki frá vandanum þegar hann er mestur. Að vel yfirveguðu ráði er það mitt mat að framar öllu sé nú brýnt að byggja upp á ný traust bæði gagnvart lánadrottnum og skjólstæðingum. Jafnframt er það mitt mat til framtíðar að það sé auðveldara fyrir nýja stjórn að byggja upp það traust,“ segir Vilhjálmur. Hann ætlar þrátt fyrir það að vinna að lausn málsins.