Vilhjálmur Vilhjálmsson, stjórnarformaður Hampiðjunnar, seldi 0,5% hlut í Hampiðjunni til Hvals hf. fyrir 337,5 milljónir króna á föstudaginn. Hvalur, stærsti hluthafi Hampiðjunnar, á eftir viðskiptin 45,7% hlut í Hampiðjunni sem er um 30,1 milljarður að markaðsvirði.

Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, situr ásamt Vilhjálmi í stjórn Hampiðjunnar.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að sala Vilhjálms sé að hluta til að greiða erfðafjárskatt frá síðasta sumri, þegar hann tók við 0,9% hlut í Hampiðjunni. Eftir söluna á Vilhjálmur um 1,7% hlut í Hampiðjunni sem er um 1,1 milljarður að markaðsvirði.

Hampiðjan, sem er skráð á First North-markaðinn, skrifaði í nóvember undir kaupsamning um kaup á öllu hlutafé í norska félaginu Mørenot sem er metið á hátt í 16 milljarða króna í viðskiptunum. Stór hluti kaupverðsins verður greiddur með hlutum í Hampiðjunni en seljendurnir munu fara með 9,4% hlut í sameinuðu félagi.

Í kjölfar þess að samkeppnisyfirvöld Færeyja, Íslands og Grænlands samþykktu samrunann, tilkynnti Hampiðjan á fimmtudaginn um að stjórn félagsins hefði samþykkt að hækka hlutafé um 51 milljónir að nafnvirði með útgáfu nýrra hluta sem afhentir verða seljendum við uppgjör viðskiptanna. Stefnt er að því að uppgjörið fari fram á morgun.

Hampiðjunnar stefnir að því að hlutabréf félagsins verði tekin til viðskipta á aðalmarkaði Kauphallarinnar í ár. Gert er ráð fyrir því að við skráningu á aðalmarkað verði hlutafé aukið og skuldir Mørenot endurskipulagðar ásamt því að fjármagn verði sótt til aukinna fjárfestinga í framleiðslustarfsemi Hampiðjunnar í Litháen.