Forkólfar „sölu- og markaðsfyrirtækisins" Iceland Express gera lítið annað en að hæða og spotta samgönguráðherra, flugmálastjóra, hugsanlega farþega, þjónustufyrirtæki og síðast en ekki síst fjölmiðlafólk sem þorir ekki að spyrja réttu spurninganna.

Þannig endaði Vilhjálmur Bjarnason, lektor og formaður félags fjárfesta, grein sem hann skrifaði um Iceland Express árið 2003 þar sem hann fór hörðum orðum um fyrirtækið.

Sem kunnugt er neitaði Vilhjálmur að þiggja 50 þúsund króna gjafabréf frá Iceland Express eftir að hafa sigrað í spurningaþættinum Útsvari á RÚV í kvöld. Í samtali við fjölmiðla í kvöld segist Vilhjálmur ekki vilja láta bera á sig þýfi en Iceland Express er nú í eigu Pálma Haraldssonar sem nýlega var stefnt fyrir að hafa unnið Glitni skaða og valdið bankanum gjaldþroti.

Iceland Express var hins vegar ekki í eigu Pálma árið 2003 þegar Vilhjálmur skrifaði umrædda grein. Þar sagðist Vilhjálmur þó hafa fylgst með íslenskri ferðaþjónustu í yfir 30 ár. Á þeim tíma hafi verið stofnuð 6-7 flugfélög og 3-4 ferðaskrifstofur „til að keppa um hylli neytenda á flugleiðum til og frá Íslandi“ svo vitnað sé til orða Vilhjálms.

„Allar hafa þessar tilraunir endað með gjaldþroti þeirra, sem til stofnuðu og í þeim gjaldþrotum hafa þjónustuaðilar tapað miklum fjárhæðum á viðskiptum við þá „frumkvöðla og frelsara" sem hafa boðað fagnaðarerindi um lággjaldaferðir landans til útlanda,“ sagði Vilhjálmur.

„Í flestum tilvikum hafa farþegar sloppið með óþægindi og skrekk því tryggingar sem ferðaskrifstofum er skylt að leggja fram, hafa dugað til að bjarga farþegunum heim með frímerki á rassinum.“

Vilhjálmur sagði þessar tilraunir ekki hafa leitt til þess að neytendur hefðu fengið betri kjör á sínum ferðalögum þegar til lengri tíma er litið.

„Þvert á móti hefur reyndin orðið sú að þær atvinnugreinar, sem falla undir ferðaþjónustu, hafa verið reknar með mun verri árangri og beinlínis taprekstri en aðrar atvinnugreinar,“ sagði Vilhjálmur.

„Þessi slæma afkoma hefur komið fram í óraunsærri verðlagningu á þjónustu og úttekt á þjónustu, sem aldrei hefur verið greidd. Lengst gekk þessi firra þegar orlofssjóðir verkalýðsfélaga voru látnir halda Samvinnuferðum-Landsýn hf. gangandi til ógæfu fyrir íslenska ferðaþjónustu. Sem kunnugt er endaði saga Samvinnuferða-Landsýnar með gjaldþroti eftir að forstjóri ferðaskrifstofunnar hafði lýst því yfir að skrifstofan ætlaði að halda uppi reglubundnu áætlunarflugi frá Íslandi á „hreint ótrúlega lágu verði". Árangurinn var 1.200-1.500 milljóna gjaldþrot, sem ferðaþjónustufyrirtæki og lánastofnanir urðu að axla.“

Þá sagði Vilhjálmur jafnframt:

„Nú um stundir ganga nokkrir menn fram fyrir skjöldu og segjast hafa stofnað „lággjaldaflugfélag", sem þó er ekki flugfélag í skilningi loftferðalaga. Þeir lýsa því yfir að þeir muni „fljúga á flugrekstrarleyfi erlendra aðila.““

Þá vísaði Vilhjálmur til þess að flugrekstur væri skilgreindur í loftferðalögum. Í IX. kafla loftferðalaga væri fjallað um skilyrði þess að samgönguráðherra veiti flugrekstrarleyfi. Í reglugerðum og tilskipunum væri gert ráð fyrir því að flugrekstraraðili leggi fram rekstraráætlun um væntanlegan rekstur og í framhaldi af því eru gerðar kröfur um eigið fé og lausafé væntanlegs flugrekstraraðila.

„Það liggur í hlutarins eðli að flugfélög í áætlunarflugi verða að hafa mun meira lausafé en leiguflugfélög,“ sagði Vilhjálmur.

„Kröfur um lausafé flugfélaga gera ráð fyrir að flugfélög geti haldið áfram rekstri í 3 mánuði án tekna. Leiguflugfélög hafa takmarkaðar skyldur við farþega. Kröfur til áætlunarfélaga byggjast á því að farþegar geti vænst þess að fá heimflutning hvað sem líður rekstrarerfiðleikum félagsins. Kröfur um lausafé eru einnig kröfur um að flugfélög vanræki ekki öryggisþætti í flugrekstrinum.“

Þá sagði Vilhjálmur að í lögum um skipulag ferðamála væri gert ráð fyrir að til að fá ferðaskrifstofuleyfi þyrfti rekstraraðili að leggja fram tryggingar sem nemi 70% af veltu tveggja veltumestu mánaðanna í röð eða 40% af veltu fjögra söluhæstu mánaðanna í röð eða 20% af ársveltu, og þá skyldi sú niðurstaða, sem gæfi hæstu tryggingu gilda.

Og Vilhjálmur bætti við:

„Viðskiptahugmynd forvígismanna Iceland Express / Reykjavík Express byggist á eftirfarandi: Að stofna ferðaskrifstofu sem heitir Reykjavík Express. Tryggingarfé ferðaskrifstofunnar er 1.000.000 kr. Réttindi ferðaskrifstofunnar heimila útgáfu farseðla fyrir flugrekstraraðila.

Blöð í stærðinni A4 eru gefin út á fyrirtæki, sem heitir Iceland Express. Samkvæmt upplýsingum framkvæmdastjórans er það einungis „sölu- og markaðsfyrirtæki". Á blaðinu eru upplýsingar um hvað greitt hefur verið fyrir, þ.e. ferð til Kaupmannahafnar eða London á tilteknum dögum ásamt flugvallarsköttum.

Hvergi kemur fram að blaðið í stærðinni A4 sé krafa á flugfélag í Bretlandi sem heitir Astraeus. Astraeus er flugfélag sem var stofnað í Bretlandi á liðnu ári og hefur takmarkaða rekstrarsögu. Á heimasíðu félagsins er síðast sagt frá afrekum í maí á liðnu ári.“

Rétt er að taka fram að breska flugrekstrarfélagið Astreus er í dag, líkt og Iceland Express, í eigu Pálma Haraldssonar.

Loks bætti Vilhjálmur við að ef þessi „tilraun“ Iceland Express myndi enda með sömu skelfingu og fyrri tilraunir þyrftu farþegar og handhafar blaða í stærðinni A4 að sækja rétt sinn til Astraeus í Bretlandi en ekki í tryggingar hjá samgönguráðuneytinu á Íslandi. Sá réttur væri þó væntanlega torsóttur því hvergi kæmi fram neitt um kröfuréttarsamband handhafa A4 blaðanna og Astraeus.

„Sem fyrr segir ganga forkólfar Iceland Express / Reykjavík Express „hreint til verks" og þeir koma sér undan að setja tryggingar fyrir fjárhagslegum skuldbindingum við farþega, hvort heldur í flugrekstri eða ferðaskrifstofurekstri,“ sagði Vilhjálmur í grein sinni.

„Það að „fljúga á flugrekstrarleyfi" breska leiguflugfélagsins Astraeus í reglubundnu áætlunarflugi ber keim af því að koma sér undan eftirliti í heimalandi með því að fljúga í öðru landi. Þetta var þekkt meðal fjármálafyrirtækja þar sem til þess var ætlast að eftirlitið væri á vegum yfirvalda í heimalandi en var í raun hvergi og hagnast með því á reglugerðarósamræmi.“