Viðskiptablaðið hefur fengið staðfest að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn og fyrrverandi borgarstjóri hefur ákveðið að hann muni ekki taka við embætti borgarstjóra í byrjun næsta árs eins og gert hafði verið ráð fyrir samkvæmt samkomulagi núverandi meirihluta.

Þess í stað mun Vilhjálmur lýsa yfir stuðningi við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, en hún er í öðru sæti á lista sjálfstæðismanna í borgarstjórn.

Samkvæmt samkomulagi núverandi meirihluta D og F lista í borgarstjórn mun Ólafur F. Magnússon, núverandi borgarstjóri sitja í embættinu fram í byrjun næsta árs, líkast til í mars. Þá er gert ráð fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn fái embætti borgarstjóra og Ólafur F. verði formaður borgarráðs.