Vilhjálmur Birgisson, sem sat í hópi á vegum forsætisráðherra sem fjallaði um verðtryggingu, skilaði sértillögum þegar meirihlutinn skilaði tillögum sínum í dag. Tillögur Vilhjálms ganga út á það að verðtrygging nýrra neytendalána verði óheimil frá og með 1. júlí 2014.

Í tillögum sínum gerir Vilhjálmur ráð fyrir skattaívilnun til niðurgreiðslu á höfuðstól/vöxtum fyrstu ár lánstíma á meðan greiðslubyrði er hærri en á verðtryggðum lánum. Þetta geri fleirum en ella kleift að fjárfesta í eigin húsnæði og hvetji til hóflegri skuldsetningar en ella. Þessari aðgerð yrði fyrst og fremst beint að þeim sem eru að kaupa fyrstu íbúð

Þá vill Vilhjálmur að tryggt verði að boðið verði upp á fjölbreytileg húsnæðislán sem þjóni þörfum lántakenda. „Mikilvægt er að afborgunarlaus lán séu í boði. Slík lán bjóða upp á lægri greiðslubyrði en hefðbundin afborgunarlán og henta vel tekjulægri lántakendum. Afborgunarleysið getur verið tímabundið (t.d. 5-10 ár) eða út allan lánstímann (allt að 30 ár),“ segir í tillögum Vilhjálms. Nafnvirði höfuðstólsins standi þá óbreytt.

Þá vill vilhjálmur að fólki verði gert kleift að nýta séreignarsparnað til að greiða niður höfuðstól lána svipað því sem lagt er til í tillögum um höfuðstólsleiðréttingu.