Uber stefnir á að félagið verði metið á um 90 milljarða dollara þegar það verður skráð á markað á næstunni. Þá hyggst félagið sækja sér um 10 milljarða dollara í nýtt hlutafé til að fjármagna frekari vöxt félagsins. BBC greinir frá .

Uber hefur aldrei skilað hagnaði í sögu sinni. Forsvarsmenn fyrirtækisins vöruðu við því að félagið kunni aldrei að skila hagnaði fyrr í þessum mánuði. Margir bjuggust við því að stefnt yrði á hærra markaðsvirði, eða yfir 100 milljarða dollara. Hlutabréfaverð Lyft, keppinautar Uber, hefur aftur á móti lækkað um 20% frá skráningu Lyft á markað um síðustu mánaðamót. Stjórnendur Uber vilja síður lenda í sömu stöðu og munu á næstu dögum hefja herferð til að selja félagið til fjárfesta.

CNBC bendir á að af þeim 110 skráðum félögum sem metin eru á yfir 50 milljarða dollara hafi einungis þrjú verið rekin með tapi í fyrra.