Indversk stjórnvöld hafa höfðað mál gegn matvælaframleiðandanum Nestlé og krefjast 100 milljóna dala, jafnvirði 13,3 milljarða íslenskra króna, frá fyrirtækinu.

Fyrr í sumar þurfti Nestlé að farga Maggi núðlum að verðmæti rúmlega 6,5 milljarða króna í landinu eftir að þarlent matvælaeftirlit sagði matvælin óörugg og hættuleg. Fyrirtækið heldur því hins vegar fram að núðlurnar séu öruggar.

Indverska matvælaeftirlitið bannaði núðlurnar frá Nestlé eftir að hafa fundið ólöglega hátt magn af blýi í sumum pökkum. Ljóst er að bannið er stórt högg fyrir félagið þar sem það hafði 80% markaðshlutdeild á núðlumarkaðnum í Indlandi áður en bannið tók gildi.  Fyrirtækið segir hins vegar að um túlkunaratriði sé að ræða í indverskum matvælaöryggislögum.

Nú hafa indversk stjórnvöld höfðað mál vegna núðlanna og halda því fram að neysla þeirra hafi skaðað neytendur. Nestlé neitar þessum ásökunum og ætlar að taka til varna.