Atome Energy, sem skoðar fýsileika vetnis- og ammoníaksframleiðslu á Bakka við Húsavík, er á leið á markað í AIM kauphöllinni í London.

Atome á 75% hlut í Green Fuel ehf., sem nýlega skrifaði undir sameiginlega viljayfirlýsingu með Norðurþingi um verkefnið. Atome segir að horft sé til 30MW framleiðslu á Bakka í kringum áramótin 2023/2024 sem síðar verði aukin í allt að 100MW. Ákvörðun um hvort af verkefninu verður á að liggja fyrir í árslok 2022. Til samanburðar er aflþörf kísilvers PCC á Bakka um 52 MW.

Þá er félagið einnig með vetnisframleiðslu í Paragvæ á teikniborðinu með aflþörf upp á allt að 250MW.

Með skráningunni verður Atome Energy aðskilið frá núverandi móðurfélagi President Energy, sem stýrt er af Bretanum Peter Levine sem verður áfram aðaleigandi beggja félaga. Atome stefnir á að sækja um 1,5 milljarða króna af nýju hlutafé við skráninguna.