Sjö útgerðir krefja íslenska ríkið um samtals 10,2 milljarða króna í skaðabætur vegna úthlutunar á aflaheimildum í makríl árin 2011-2018. Þetta kemur í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar.

Hæstiréttur dæmdi íslenska ríkið skaðabótaskylt gegn útgerðum aflareynsluskipa vegna úthlutunar aflahlutdeildar fyrrgreind ár. Samfelld veiðireynsla og bar því að kvótasetja á grunni hennar. Þess í stað var aflahlutdeild úthlutað samkvæmt reglugerð og hlutur aflareynsluskipanna skertur.

Hæsta krafan er frá Ísfélagi Vestmannaeyja, tæplega 3,9 milljarðar króna, en því næst kemur Eskja með rúmlega tvo milljarða. Loðnuvinnslan og Skinney-Þinganes vilja rúmlega milljarð hvort í bætur og þá vilja Huginn og Vinnslustöðin tæpan milljarð í bætur. Lægsta krafan er frá Gjögur sem vill 328 milljónir.

Í öllum tilfellum er krafist vaxta frá útgáfudegi reglugerða um veiðiheimildir í makríl auk dráttarvaxta frá þingfestingu málanna.

Viðskiptablaðið hefur óskað eftir afriti af stefnum málanna hjá Ríkislögmanni en því var synjað. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur snúið þeirri afstöðu embættisins. Frestur ríkislögmanns til að óska eftir frestun réttaráhrifa rennur út á þriðjudag.