Reginn ehf., dótturfélag Landsbankans, vill fá a.m.k. 12,5 milljarða króna fyrir Eignarhaldsfélag Smáralindar sem er í opnu söluferli.

Þar er horft til bókfærðs virðis verslunarmiðstöðvarinnar Smáralindar, að sögn Helga S. Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Regins, sem telur að um góða tímasetningu sé að ræða fyrir sölu fasteignar af þessari stærðargráðu.

Á annan tug aðila munu hafa tilkynnt um áhuga sinn að taka þátt í sölumeðferð Smáralindar en í þessum hópi eru nokkrir erlendir fjárfestar samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins. Lokafrestur til að taka þátt í söluferlinu rann út fyrr í vikunni og verður þeim fjárfestum sem uppfylla skilyrði fyrir frekari þátttöku tilkynnt um það á morgun.

Gerð er sú krafa að mögulegur kaupandi hafi fjárfestingargetu upp á hálfan milljarð króna.

Vaxtaberandi skuldir Smáralindar námu um 8,2 milljörðum í árslok 2009 og var eigið fé að viðbættum víkjandi lánum rúmir 4,4 milljarðar. Ætla má að skuldastaða félagsins hafi lækkað frá áramótum, enda var stærstur hluti þeirra í erlendri mynt.

Um 780 milljóna króna rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) varð af rekstri Smáralindar á síðasta ári.