Bæjarstjórn Reykjanesbæjar segir að ef ríkisstyrkur fáist ekki fyrir hafnarframkvæmdum í Helguvík muni bærinn ekki geta efnt skuldbindingar sínar gagnvart United Silicon. Þetta kemur fram í bréfi sem bærinn hefur sent umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, þar sem óskað er eftir að framkvæmdirnar verði settar á Samgönguáætlun 2015 til 2018.

Í kostnaðaráætlun kemur fram að ríkisstyrkur þurfi að nema rúmum 2,3 milljörðum króna á tímabilinu. Í greinargerð hafnarstjóra Reykjaneshafnar, sem er fylgiskjal með bréfinu, kemur fram að umleitunum bæjarins um ríkisstyrk hafi ekki verið sinnt frá árinu 2009.

Fram kemur að „Árni Johnsen og fleiri góðir þingmenn reyndu án árangurs á árnunum 2010 og 2011 að koma inn sérlögum um ríkisstyrk til Helguvíkur“.