Skipholt 33, einnig þekkt sem Vinabær hefur verið sett á sölu. Ásett verð er 290 milljónir króna en húsnæðið er alls 770 fermetrar að því fram kemur í fasteignaauglýsingu á vef mbl.is.

Húsið er þekkt fyrir landsfræg bingókvöld sem haldin hafa verið þar allt frá árinu 1990. Húsið er í eigu sjálfseignarstofnunarinnar Vinabær, sem upphaflega hét Veltubær, og er rekið af Bindindissamtökunum I.O.G.T. á Íslandi.

Á vef Vinabæjar segir að hugmyndin að bingóskemmtunum hafi fæðst árið 1982 þegar fjármagna þurfti alþjóðamót I.O.G.T. á Íslandi sumarið 1984. Fyrstu bingókvöldin voru haldin í Glæsibæ og síðar Tónabæ. Félagið þurfti svo að finna nýjan stað þegar félag eldri borgara hugðist kaupa Tónabæ af Reykjavíkurborg. Því fór svo að samtökin keyptu Skipholt 33 á 25 milljónir króna en kostnaður við endurbætur nam 35 milljónum króna til viðbótar. Fram að því var húsið þekkt sem Tónabíó þar sem finna mátti bíósal og húsnæði Tónlistarskólans í Reykjavík.

Á vefnum er bent á að Kristinn Vilhjálmsson hafi haft veg og vanda af bingói samtakanna sem og kaupunum á Vinabæ. Kristinn, sem fæddist árið 1912, var á hverju bingókvöldi sem framkvæmdastjóri samtakanna þar til hann lést árið 1995.

Bent er á í fasteignaauglýsingu að í húsinu sé bíósalur sem getur tekið allt að 200 manns í sæti og þar sé að finna eldhús, sjoppu auk rýma sem geta hýst annars vegar 20 manns í sæti og hins vegar 20 til 30 manns.