SFR, Landssamband lögreglumanna og Sjúkraliðafélag Ísland vilja að laun þeirra hækki í samræmi við úrskurð gerðardóms og hafa lagt fram kröfu um 30 prósenta launahækkun. Auk þessara félaga eiga fjölmörg félög innan BSRB og launamenn innan Starfsgreinasambandsins eftir að semja við ríkið.

Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, segir í samtali við fréttastofu RÚV að félögin sætti sig ekki við minna en launahækkanir á borð við þær sem gerðadómur ákvað handa hjúkrunarfræðingum.

Félögin kynntu launakröfur sínar fyrir samninganefnd ríkisins í síðustu viku. Samninganefndin kom með gagntilboð í fyrradag sem hljóðar upp á 18 til 20 prósenta launahækkanir og 4 ára samning eða svipaðar hækkanir og samið var um í kjarasamningum í vor á almenna markaðinum. Árni segir að tilboð ríkisins komi mjög á óvart. Það sé sama tilboð að nefndin kynnti í júní.