*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 17. október 2014 10:04

Vilja 35 stunda vinnuviku

Þingmenn Pírata, ásamt þingmanni Samfylkingarinnar, hafa lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um 40 stunda vinnuviku.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Björn Leví Gunnarsson og Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmenn Pírata, hafa ásamt Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um 40 stunda vinnuviku.

Frumvarpið felur í sér þá breytingu að í hverri viku skuli ekki vera fleiri en 35 dagvinnutímar sem vinna beri á dagvinnutímabili á virkum dögum og að jafnaði skuli unnar 7 klukkustundir í dagvinnu á degi hverjum frá mánudegi til föstudags.

Segir í frumvarpinu að þrátt fyrir að fjöldi vinnustunda á ári hafi dregist saman á undanförnum árum sé meðalvinnuvika á Íslandi, þar sem af sé árinu 2014, 40 stundir. Í skýrslum OECD, sem mæli jafnvægi á milli vinnu og frítíma, sjáist að Ísland komi mjög illa út þar sem landið sé í 27. sæti af 36 þjóðum. Heildarvinnutími yfir árið sé þó rétt undir meðaltali OECD-landa.

Þá segir einnig að framleiðni á Íslandi sé undir meðaltali OECD-landa og að Frakkland, sem hafi verið með 35 stunda vinnuviku frá árinu 2000, sé með talsvert hærri framleiðni en Ísland og mun ofar í mælingu um jafnvægi milli vinnu og frítíma.