Höskuldur Þórhallsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar vill 500 milljónir í viðbótar úr ríkissjóði til að stækka Akureyrarflugvöll undir millilandaflug. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2. „Já ég er bjartsýnn á að við getum komið inn fjármunum til að koma þessu mikilvæga verkefni af stað," segir Höskuldur. Fyrirhugað er að stækkunin muni samtals kosta 600 milljónir.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætis- og dómsmálaráðherra, lýsti einnig nokkrum stuðningi við verkefnið í sumar en mikið af efni sem fellur til við borun Vaðlaheiðarganga mætti nýta til að lengja flugbraut Akureyrarflugvallar. "Jú það eru víða mikilvæg verkefni og aðkallandi. Hér er bæði þessi kostur að hafa nægt efni, sem að menn hljóta þá að vilja nýta tækifærið að nota íþetta en einnig þörf að það gerist á ekki of löngum tíma því annars safnast þetta upp hér," sagði forsætisráðherra í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Isavia leggst gegn hugmyndinni

Í Viðskiptablaðinu þann 9. október var greint frá því að Isavia legðist mjög gegn hugmyndum um að millilandaflugvöllum yrði fjölgað hér á landi. Eru ástæðurnar einkum stóraukinn rekstrarkostnaður. „Isavia telur það ranga forgangsröðun ef fjármagn sem bráðvantar til viðhalds og reksturs innanlandsflugvalla yrði veitt til uppbyggingu fleiri millilandaflugvalla,“ sagði Friðþór Eydal, upplýsingafulltrúi Isavia í Viðskiptablaðinu.