Stjórn Glitnis HoldCo hefur boðist til að halda áfram störfum fyrir félagið fái þeir greitt sem samsvarar tæplega 600 þúsund krónum á dag fyrir störf fyrir félagið. Stjórnin var kjörin til tveggja ára í lok janúar 2016 og rennur skipunartími hennar því út síðar í þessum mánuði.

Í yfirlýsingu stjórnarinnar sem birt var á vefsvæði hluthafa Glitnis fyrir jól kemur fram að stjórnin hafi boðist til að halda áfram störfum fái hún samanlagt 70 þúsund evrur, um 8,8 milljónir króna á ári. Hins vegar vilja stjórnarmennirnir, sem eru þrír, fá sérstaklega greitt þurfi þeir að starfa meira en fimm heila vinnudaga á ári fyrir Glitni.

Miðað við að stjórnarmennirnir vinni fimm daga mun hver þeirra fá greitt að meðaltali 584 þúsund krónur á dag. Sé miðað við átta tíma vinnudaga samsvara launin því að lágmarki 73 þúsund krónum á tímann. Stjórnarkjör fer fram á hluthafafundi Glitnis í lok janúar. Stjórnin segist einnig vera tilbúin að láta af störfum og vera nýkjörinni stjórn innan handar sé það vilji hluthafa.

Greiddu 400 milljónir í laun

Að undanskildum háum bónusgreiðslum hafa stjórnendur Glitnis fengið nokkuð ríkulega borgað fyrir störf sín. Á hluthafafundi í janúar árið 2016 var samþykkt að hinir almennu stjórnarmenn Steen Parsholt og Tom Grøndahl, fengju greitt sem 350 þúsund evrur á ári sem nú samsvarar 44 milljónum króna og að Mike Wheeler, formaður stjórnar, fengi 500 þúsund evrur eða 63 milljónir króna á ári. Samkvæmt ársreikningi ársins 2016 voru launagreiðslur til stjórnar og forstjóra 1,9 milljónir evra og því má gera áætla að laun Ingólfs Haukssonar, forstjóra Glitnis, hafi verið um 700 þúsund evrur árið 2016 eða 88 milljónir króna.

Launagreiðslur Glitnis á fyrstu níu mánuðum ársins 2017 námu 3.151 þúsund evrum eða tæplega 400 milljónum króna en fimm starfsmenn störfuðu hjá Glitni í lok ársins auk stjórnarinnar.

Samið um starfslok við alla starfsmenn

Glitnir HoldCo var stofnað eftir nauðasamning slitabús Glitnis og samkomulag um greiðslu stöðugleikaframlags til ríkisins í árslok 2015. Hlutverk félagsins var að umbreyta óseldum eignum þess í reiðufé og greiða út til hluthafa sem eru að stærstum hluta erlendir vogunarsjóðir.

Samkvæmt yfirlýsingu stjórnarinnar voru einungis 1,8 milljónir evra eftir af óseldum eignum um áramótin, um 225 milljónir króna. Auglýsa á stærstu óseldu eignina sem metin er á um 1,5 milljónir evra á vef félagsins og um 300 þúsund evrur eigi að skila sér á árinu 2018 en útvista eigi því verkefni að koma tveimur eignum til viðbótar í verð.

Því hefur stjórn Glitnis ákveðið að hefðbundnum daglegum rekstri Glitnis ljúki þann 31. janúar. Starfslokasamningur hefur verið gerður við þá fimm starfsmenn sem eftir eru hjá Glitni, sem felur þó í sér að þeir geti verið félaginu innan handar næstu sex mánuði sé þess þörf.

Ríkið fær innlendar eignir

Í yfirlýsingunni kemur jafnframt fram að líkt og kveðið sé á í samkomulagi um stöðugleikaframlög muni Glitnir greiða það sem eftir sé af innlendum eignum sínum til íslenska ríkisins í lok janúar.

Fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .