Frigus II ehf. hefur stefnt íslenska ríkinu og Lindarhvoli ehf. til greiðslu skaðabóta að fjárhæð rúmlega 651 milljón króna vegna tjóns sem félagið telur sig hafa orðið fyrir vegna sölumeðferðar Lindarhvols á hlutafé í Klakka ehf. og nauðasamningakröfu á hendur sama félagi. Að mati Frigusar var tilboð félagsins sniðgengið í söluferlinu og þess í stað fallist á tilboð sem ekki uppfyllti skilyrði útboðsins. Málið var þingfest síðasta þriðjudag.

Saga Lindarhvols ætti að vera flestum ágætlega kunnug en félagið var stofnað árið 2016 til að koma stöðugleikaeignum, sem runnið höfðu til ríkissjóðs, í verð. Skömmu eftir stofnun gerði félagið samkomulag við lögmannsstofuna Íslög til að gæta „samfellu í rekstri þessara eigna“ en Steinar Þór Guðgeirsson, eigandi Íslaga, hafði áður haft aðkomu að málinu, fyrst í umboði Seðlabankans og síðar ríkissjóðs.

Meðal þess sem Frigus byggir kröfu sína á er að jafnræði bjóðenda hafi verið krossbrotið. Aðrir tilsboðsgjafar, sem voru þáverandi forstjóri og fjármálastjóri Klakka, hafi haft betri upplýsingar um fjárhagsstöðu félagsins en aðrir þátttakendur. Það hafi einnig gilt um fyrrnefndan Steinar Þór en hann var á þessum tíma stjórnarmaður í Klakka. Þá hafi kauptilboð Frigus í raun verið hið hagstæðasta af þeim sem bárust þar sem það var ekki bundið fyrirvörum líkt og hin tvö.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .