Seðlabanki Þýskalands hefur lagt til að Þjóðverjar vinni til 69 ára aldurs. Þetta kemur fram á vef BBC. Núverandi eftirlaunaaldur er 65 ára, en þörf er á að hækka viðmiðið ef ríkið á að geta staðið við lífeyrisskuldbindingar.

Bankinn telur það æskilegt að ráðist verði í að hækka eftirlaunaaldurinn fyrir árið 2060. Nú þegar er stefnt að því að eftirlaunaaldur hækki upp í 67 ára fyrir árið 2030. Bundesbank er aftur á móti þeirrar skoðunar að rífa verði viðmiðið upp, annars verði ellilífeyriskerfið orðinn talsverður hausverkur fyrir árið 2050.

Staða kerfisins er góð að mati sérfræðinga eins og er, en gera má ráð fyrir erfiðari aðstæðum. Hlutfall ellilífeyrisþega er sífellt að aukast og eru fjölskyldur bæði farnar að eignast færri börn og það síðar á ævinni.