Forsvarsmenn bandaríska fyrirtækisins Silicor Materials hafa óskað eftir lóð á Grundartanga undir eina stærstu sólarkísilverksmiðju í heimi. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins yrði kostnaðurinn við framkvæmdirnar um 77 milljarðar króna. Fyrirtækið vill hefja framkvæmdir næsta haust.

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að áætlanir Silicor Materials gera ráð fyrir verksmiðju sem gæti framleitt um sextán þúsund tonn af kísil á ári og skapað um fjögur hundruð störf. Kísillinn yrði framleiddur með sérstakri framleiðsluaðferð þar sem efnið er hreinsað með bræddu áli og hann síðan seldur til framleiðenda sólarrafhlaðna. Gert er ráð fyrir að ál frá íslenskum álfyrirtækjum verði notað til framleiðslunnar og þá líklegast frá Norðuráli á Grundartanga.

Það eru Faxaflóahafnir sem eiga lóðirnar og standa yfir viðræður við Hvalfjarðarsveit um skipulagsbreytingar vegna aukins áhuga á þeim.