Bandarísk samkeppnisyfirvöld (e. The Federal Trade Commission) samþykktu kaup Actavis á lyfjafyrirtækinu Abrika í gær með þeim fyrirvara að íslenska félagið selji hluta starfseminnar til að koma í veg fyrir einokunaraðstöðu.

Abrika hefur sterka markaðshlutdeild í sölu á blóðþrýstings- og þunglyndislyfinu Isradipine í Bandaríkjunum og segja samkeppnisyfirvöld að með kaupunum hafi Actavis skapað sér einokunaraðstöðu til sölu á lyfinu og krefst því að félagið selji frá sér þann hluta starfseminnar.

Actavis keypti Abrika í fyrra fyrir 16,5 milljarða króna, og þar af nema árangurstengdar greiðslur tæpum níu milljörðum, sem koma til greiðslu á næstu þremur árum. Kaupin á Abrika voru þau síðustu í innkaupleiðangri Actavis í fyrra en nú á fyrirtækið í viðræðum um að kaupa samheitalyfjaeiningu Merck. Talið er að hugsanlegt kaupverð einingarinnar sé allt að fimm milljarðar evra, sem samsvarar rúmlega 440 milljörðum íslenskra króna.

Vangaveltur voru í síðustu viku um að Actavis hefði misst áhugann á Merck en aðstoðarforstjórinn, Sigurður Óli Ólafsson, segir þær vangaveltur "bara kjaftasögur." Í frétt indverska blaðsins The Times of India segir að Actavis og indverska lyfjafyrirtækið Torrent Pharmaceuticals séu líklegustu fyrirtækin til að kaupa Merck-eininguna. Blaðið hefur eftir heimildarmönnum sínum að ísraelski samheitalyfjarisinn Teva hafi áhyggur af verðmiðanum og að Merck hafi góða stöðu á mörkuðum þar sem Teva hefur nú þegar sterka stöðu.

Á fundi greiningardeildar Kaupþings í gær, þar sem þróun og horfur á innlendum hlutabréfamarkaði voru kynntar, sagði Haraldur Yngvi Pétursson, sérfræðingur greiningardeildar, að hann teldi Actavis best í stakk búið til að hreppa Merck af þeim félögum sem eru að bítast um Merck. Þá sagðist hann ekki vera trúaður á að Actavis yrði yfirtökumarkmið þó að félaginu mistækist að landa Merck. Þess má geta að greiningardeildin setur Actavis í markaðsvogun.