Samtök fjárfesta hafa óskað eftir því að efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra taki til skoðunar sölu þriggja stjórnarmanna Spron [ SPRON ] á stofnfé í sparisjóðnum síðastliðið sumar.  Þetta kemur fram á vef Ríkisútvarpsins.

Þrír stjórnarmenn í Spron seldu hluta af stofnfé sínum í sjóðnum fyrir um 195 milljónir króna að nafnvirði í júlí.

Gunnar Þór Gíslason seldi tæplega 189 milljónir, Hildur Petersen seldi 7,2 milljónir og Ásgeir Baldurs seldi 270.000.

Talið er að heildarverðmæti þessara bréfa hafi þá verið 2-3 milljarðar króna.

Spron var skráð í Kauphöllina í október en lokaði hafði verið fyrir viðskipti í félaginu í ágúst.

Í frétt RÚV kemur fram að deilt hafi verið um hvort stjórnin hefði átt að upplýsa um sölu stofnfjárbréfanna en stjórnin taldi sig ekki hafa heimild til þess þá, og bar fyrir sig eldri bréfaskipti við Fjármálaeftirlitið. Eftirlitið sagði hins vegar í nýlegu bréfi til Samtaka fjárfesta að stjórnarmönnum hefði verið heimilt að segja frá því. Þeir séu hins vegar ekki skyldugir til þess þar sem Spron var þá ekki skráð.

Nú hafa Samtök fjárfesta beðið efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra um að taka málið til skoðunar en Vilhjálmur Bjarnason, framkvæmdarstjóri Samtakanna, hafði áður lýst því yfir að nauðsynlegt væri að komast til botns í málinu, segir í frétt RÚV.

Í erindinu er sérstaklega vísað í orð Fjármálaeftirlitsins þess efnis að ef viðskipti eiga sér stað með bréf í óskráðum eignum njóti samningsaðilar réttarverndar almennra reglna samningsréttar.

Björn Þorvaldsson, aðstoðarsaksóknari efnahagsbrotadeildar, staðfesti við Fréttastofu Útvarps í morgun að erindið hefði borist á þeirra borð og yrði tekið til skoðunar.