Viðræður standa yfir við nokkra af stærri lífeyrissjóðum landsins um að þeir fjármagni lán sem nú stendur undir byggingu og framtíðarrekstri tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu. Höskuldur Ásgeirsson, framkvæmdarstjóri Portusar ehf., segir að til standi að endurfjármagna lánið sem nokkrir bankar standa á bak við. Það eru Landsbankinn, Arion og Íslandsbanki.

„Það sem við viljum tryggja með því er fyrst og fremst að festa vextina og taka vaxtaáhættuna út úr fjármögnunni og freista þess að lækka vextina í leiðinni,“ segir Höskuldur. Sambankalánið ber nú óverðtryggða breytilega vexti en í mars á næsta ári verður lánið verðtryggt. Ríki og Reykjavíkurborg hafa skuldbundið sig til að greiða ákveðna upphæð árlega, eða ríflega 800 milljónir króna, að því er fram kom í fjölmiðlum í janúar síðastliðnum.

Sú upphæð mun standa á bak við skuldabréfið sem Portus vill selja lífeyrissjóðunum sem tryggingu fyrir greiðslu. Gert er ráð fyrir að sambankalánið standi í 17,4 milljörðum króna í maí á næsta ári, sem lífeyrissjóðir munu þá fjármagna gangi þetta eftir.

Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, viðurkennir að viðræður eru farnar af stað. Hann segir enga niðurstöðu komna, ekki sé ljóst hver kjörin á skuldabréfinu verði og enn sé ófrágengið hvort og hvaða lífeyrissjóðir taki þátt í verkefninu. Í raun sé ótímabært að fjalla um þetta mál í einhverjum smáatriðum. Næstu vikur muni skera úr um hvort af þessu verði.