Samtök iðnaðarins telja að opinberir aðilar geti með einfaldri breytingu á verklagi komist hjá því að eiga viðskipti við kennitöluflakkara. Þau hafa ritað Reykjavíkurborg bréf þar sem lagt er til að breyting í þessa veru verði gerð á 23. gr. innkaupareglna borgarinnar. Þá hefur Framkvæmdasýslunni, Ríkiskaupum, Vegagerðinni og Landsvirkjun verið ritað bréf með samhljóðandi tillögu að ákvæði í útboðslýsingar.

Í VI.kafla laga um opinber innkaup nr. 94/2001 er mælt fyrir um þær kröfur sem verkkaupi skuli gera til hæfni bjóðenda og heimild hans til að vísa bjóðanda frá. Ákvæði 28. gr. laganna mæla fyrir um að bjóðandi sé ekki undir né hafi verið óskað eftir gjaldþrotaskiptum, hafi ekki fengið heimild til nauðasamninga eða greiðslustöðvunar eða sé í annarri sambærilegri stöðu. Alvarleg vanræksla í starfi eða röng upplýsingagjöf um fjárhagslega getu á samkvæmt lögunum að útiloka fyrirtæki frá viðskiptum í opinberum innkaupum. Bjóðandi er samkvæmt lögunum einstaklingur eða lögaðili.

Hvarvetna á almennum markaði ræður orðstírr og efndir fyrirtækja úrslitum
um það hvort þau ná að afla sér nýrra viðskipta. Allir ábyrgir þátttakendur
á markaði kynna sér sögu þeirra fyrirtækja sem þeir hyggjast eiga við
viðskipti. Á síðustu dögum hefur hins vegar komið fram að opinberir aðilar
hérlendis skoði vart eða ekki viðskiptasögu bjóðenda í útboðum.

Meginhlutverk innkaupastofnana lögum samkvæmt er þó að tryggja hagkvæmni í meðferð almannafjár og stuðla að samkeppni á jafnræðisgrunni. Lög um opinber innkaup mæla skýrt fyrir um að þær aðstæður sem einkenna kennitöluflakkara þ.e. vanskil og greiðsluþrot, útiloki samningsgerð.

Fyrir nokkrum árum tókst með sameiginlegu átaki aðila vinnumarkaðarins og opinberra innkaupastofnana að stemma stigu við gerviverktöku. Þá var
aðferðin sú að taka upp sérstakt samræmt ákvæði í útboðslýsingar. Nú gera
Samtök iðnaðarins sams konar tillögu um samræmt ákvæði til höfuðs
kennitöluflakki. Hún er efnislega svohljóðandi:

"Sé kennitala bjóðanda nýrri en 5 ára skal kanna viðskiptasögu stjórnenda
og helstu eigenda. Leiði sú könnun í ljós nýlegt greiðslu- eða gjaldþrot
sbr. 28. gr. laga um opinber innkaup (gjaldþrot, nauðarsamninga,
greiðslustöðvun ofl.) ber að vísa bjóðanda frá, enda eigi í hlut öldungis
sams konar rekstrareining, með sömu eða nær sömu eigendur, í sömu eða nær sömu atvinnustarfsemi, á sama markaði en með nýja kennitölu."

Það er skoðun Samtaka iðnaðarins að þetta breytta verklag opinberra aðila
geti skipt sköpum til að stemma stigu við ómældu tjóni sem
kennitöluflakkarar baka íslensku atvinnulífi og heiðarlegum þátttakendum á
markaði.