Meirihluti þingmanna í utanríkismálanefnd alþingis hefur beint því til ríkisstjórnarinnar að fyrirsvar í dómsmálum og öðru því sem snýr að Icesave gagnvart ESA og EFTA-dómstólnum sé áfram í höndum Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá meirihluta nefndarinnar en undir hana skrifa stjórnarandstöðuþingmennirnir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Ólöf Nordal, Ragnheiður Elín Árnadóttir og stjórnarþingmaðurinn Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.

Í yfirlýsingunni segir að ýmis fordæmi séu fyrir þeirri tilhögun að fagráðherra fari með fyrirsvar í tilteknum milliríkjamálum og eðlilegt sé að efnahags- og viðskiptaráðherra hafi áfram samráð um allar ákvarðanir í málinu við utanríkismálanefnd Alþingis.

„Þá hlýtur að teljast æskilegt að úrvinnsla Icesave sé ekki á sömu hendi og aðildarviðræður við Evrópusambandið. Í ljósi forsögu málsins er mikilvægt að aðkoma að málinu byggi á raunverulegu samráði allra flokka á Alþingi og að sem víðtækust sátt ríki um málsmeðferðina í samfélaginu,“ segir í yfirlýsingu meirihlutans.

Meirihluti nefndarmanna, fimm fulltrúar af níu, leggja því áherslu á að Árni Páll fari áfram með fyrirsvar Icesavemálsins gagnvart ESA og EFTA dómstólnum. Minnihluti nefndarinnar, fjórir fulltrúar ásamt Birgittu Jónsdóttur, sem er áheyrnafulltrúi í nefndinni, lýstu því yfir í gærkvöldi að þau teldu rétt að hið formlega fyrirsvar vegna málareksturs gagnvart EFTA-dómstólnum sé á hendi utanríkisráðherra.