Sveitarfélögin sem standa að Eignarhaldsfélaginu Fasteign vilja að Íslandsbanki og skilanefnd Glitnis taki á sig þær skuldbindingar sem félagið stofnaði til vegna byggingar Háskólans í Reykjavík og sundlaugar á Álftanesi, að skuldir vegna eigna sem þau leigja af Fasteign verði lækkaðar og að sveitarfélögin yfirtaki á ný þær eignir.

Til að ná fram þessu markmiði hafa sveitarfélögin skipað samninganefnd sem í sitja þrír stjórnarmenn Fasteignar auk lögmannsins Lárusar Blöndal. Nefndin á sem stendur í viðræðum við skilanefnd Glitnis og Íslandsbanka um hvernig eigi að leysa gríðarleg vandamál Fasteignar. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að búist sé við niðurstöðu í málinu innan mánaðar.

Fasteign er fasteignafélag í eigu nokkurra sveitarfélaga og Miðengis, dótturfélags Íslandsbanka. Félagið keypti fjölmargar fasteignir af sveitarfélögunum við stofnun og þau leigja þær síðan aftur af félaginu. Til viðbótar hefur verið ráðist í stórtækar framkvæmdir á vegum Fasteignar sem hafa verið afar kostnaðarsamar.