Ef ríkið selur eignahluti sína í viðskiptabönkunum þá á að nýta þá fjármuni sem fást fyrir þá til að greiða niður skuldir hins opinbera en ekki að fjármagna hallarekstur ríkisins, að mati Hagfræðideildar Landsbankans.

Bankasýsla ríkisins stýrir 81,33% hlut í Landsbankanum sem er í eigu ríkisins. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði á fundi Landsbankans í síðustu viku æskilegt að bankinn verði skráður á markað en að ríkissjóður haldi eftir 30-40% hlut í honum.

Landspítalinn fær 42 milljarða

Í riti Hagfræðideildarinnar Vikubyrjun segir að í fjárlögum ársins er gert ráð fyrir því að vaxtagjöld ríkisins nemi 85 milljörðum króna en vaxtatekjur 21 milljarði króna. Nettó vaxtargjöld ríkisins nema því um 64 milljörðum króna. Rifjað er upp til samanburðar að fjárlögum ársins 2013 veitir Alþingi um 42 milljörðum króna til reksturs Landspítalans. Bent er á að gjöld jukust mikið árið 2009 samhliða auknum skuldum ríkisins í kjölfar falls viðskiptabankanna. Á móti hluta þessara skulda myndaðist eign, m.a. hlutur ríkisins í viðskiptabönkunum.

Hagfræðideildin segir:

„Ef ríkið selur þessar eignir allar eða að hluta, er eðlilegast að ríkið noti þessa fjármuni til að greiða niður skuldir, en ekki til þess að fjármagna hallarekstur ríkisins.“