Deilibílaþjónustan Uber hefur sent bréf til ríkisstjóra allra fylkja Bandaríkjanna þar sem félagið óskar eftir því að bílstjórar á þeirra vegum verði flokkaðir sem þjóðhagslega mikilvægir starfsmenn, og fái þ.a.l. forgang að COVID-19 bóluefni.

Í frétt Reuters um málið er jafnframt greint frá því að Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna, muni fá sent bréf með sömu bón frá Uber.

Þar sem fjöldi bóluefnaskammta mun fyrst um sinn verða takmarkaður í Bandaríkjunum hefur það fallið í hlut hvers ríkis fyrir sig að forgangsraða hvaða hópar íbúa fái bólusetningu fyrst. Talsmenn ríflega 20 stórra geira í Bandaríkjunum hafa þrýst á yfirvöld í ríkjunum að setja starfsmenn sína efst á forgangslista. Ríkjanna bíður því vandasamt verk við fyrrnefnda forgangsröðun.