Jón Gnarr borgarstjóri hefur lagt til að Reykjavíkurborg kaupi Perluna af Orkuveitu Reykjavíkur, breyti henni fyrir 100 milljónir króna og leigi síðan ríkinu húsið í allt að 15 ár undir náttúruminjasýningu. Borgarráð tók tillöguna til umfjöllunar á fundi sínum í morgun. Að beiðni sjálfstæðismanna var tillögunni frestað um eina viku.

Í greinargerð starfshóps sem skipaður var um kaup Reykjavíkurborgar á Perlunni kemur m.a. fram að gert sé ráð fyrir að byggja milligólf í hluta byggingarinnar og opna betur inn í hitaveitutankinn þar sem sögusýningin var áður.

Í tilkynningu frá borginni þar sem grein er gerð fyrir tillögunum segir að með kaupunum verði almenningi áfram tryggður aðgangur að Perlunni og umhverfi hennar, þó með þeim takmörkunum að selt verður inn á náttúruminjasýninguna. Þá gefist borginni tækifæri til þess að stjórna uppbyggingu og nýtingu svæðisins sem Perlan stendur á í Öskjuhlíð. Bent er á að nú sé í gangi skipulagssamkeppni um Öskjuhlíðina á vegum skipulagsráðs Reykjavíkurborgar.

Vildu ekki selja Perluna

Stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur skrifuðu undir viljayfirlýsingu um sölu á Perlunni í desember í fyrra og var hún auglýst til sölu í desember. Samkvæmt tilboði sem barst í hana stóð til að byggja í Öskuhlíðinni hótel og baðstað. Hjörleifur Stefánsson arkitekt og Þórunn Sigríður Þráinsdóttir sýningahönnuður mótmæltu áformunum um svipað leyti. Hjörleifur sagði Perluna stórmerkilega en skorta hagnýtt hlutverk. Þau mæltu frekar með því að koma náttúruminjasafni sem hafi verið á hrakhólum fyrir í Perlunni.