Mikil óánægja ríkir innan raða breska Verkamannaflokksins með leiðtogann, Ed Miliband. Svo gæti farið að 20 áhrifamenn innan flokksins krefjist formlega afsagnar Miliband á næstu dögum, að því er fram kemur á vef The Guardian.

Ný skoðanakönnun, meðal kjósenda Verkamannaflokksins, sýnir að stuðningur við Miliband sem leiðtoga hefur minnkað talsvert á síðustu mánuðum og er nú í fyrsta sinn kominn undir 50%. Stuðningur við Verkamannaflokkinn mælist hins vegar 32%, einungis þremur prósentustigum meiri en við Íhaldsflokkinn, eftir hátt í fjögur ár í stjórnarandstöðu.

Áhrifamennirnir sem vilja Miliband út er dreifður hópur sem kemur víða að úr flokknum og því er líklegt að hópurinn geti haft talsverð áhrif á stöðu leiðtogans. Margir þeirra vilja sjá fyrrum ráðherrann Alan Johnson taka við embætti Miliband, en Johnson hefur sjálfur sagst hafa lítinn áhuga á því.

Einungis sex mánuðir eru til þingkosninga í Bretlandi og því er ómögulegt að segja hvaða áhrif það hefði á flokkinn ef Miliband myndi stíga til hliðar á þessum tímapunkti.