Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis vill að í lögum um ársreikninga verði kveðið á um skyldu til að upplýsa þurfi alla um eignarhald fyrirtækja. Eignarhaldið verður þá rekjanlegt til einstaklinga en ekki aðeins til annarra félaga eða lögaðila. Þetta er haft eftir Lilju Mósesdóttur í Morgunblaðinu í dag. „Ef upplýsingar liffja fyrir um alla eigendur fyrirtækja geta lánastofnanir greint krosseignatengsl og þannig metið með mun betri hætti, hver raunveruleg áhætta af lánveitingu til viðkomandi eiganda er,“ segir Lilja.

Líkt og fjallað var um í gær hefur Fjármálaeftirlitið vitneskju, en ekki heimild til að greina frá því, hverjir standa að baki eignarhaldsfélags Straums. Lilja segir eiganda Straums vera vogunarsjóð og hefur óskað eftir fundi með fulltrúa FME til að hann útskýri forsendur þess að eftirlitið samþykkti ALMC sem hæfan eiganda fjármálafyrirtækis.