Bandarískir milljónamæringar styðja flestir hugmyndir fjárfestisins Warren Buffett um að hinir efnameiri greiði hærri skatta – svo lengi sem þeir þurfa ekki að greiða þá sjálfir.

Þetta sýnir könnun PNC Wealth Management sem birt er á vef Bloomberg fréttaveitunnar í dag.

Um 71% aðspurðra sögðust vera sammála Buffett um að hinir efnameiri greiði hærri skatta en þeir gera í dag. Þá sagðist sami hópur vera sammála því að efnameiri fólki bæri siðferðisleg skylda til að gefa meira til góðgerðarmála en það gerir í dag.

Um helmingur allra aðspurðra, eða 49%, sögðu þó að þeir væru ekki í sama flokki og Buffett þegar kemur að velmegun og töldu ofangreind atriði því ekki eiga við sig.

„Þegar við berum okkur saman við einhvern teljum við alltaf að einhverjir aðrir eigi að gera meira,“ segir R. Bruce Bickel, aðstoðarframkvæmdastjóri PNC í samtali við Bloomberg. Um 550 einstaklingar svöruðu könnun PNC. Allir eiga þeir eignir yfir 1 milljón Bandaríkjadala. Að sögn Bickel má gera ráð fyrir að fæstir þeirra telji sig þó sambærilega við Buffett í ljósi eigna.

Buffett, sem er þriðji ríkasti maður heims samkvæmt Forbes tímaritinu, lagði það til sl. haust að skattar yrðu hækkaðir á einstaklinga sem eiga meira en 1 milljón dali. Um 237 þúsund heimili í Bandaríkjunum eiga meiri eignir en það. Í könnuninni var ekki spurt hversu miklar eignir þyrfti til að hækka eða breyta skattaálagningu.

Um 41% aðspurðra sögðu að þeir myndu breyta fjárfestingastefnu sinni til að bregðast við hærri sköttum. Þá sögðust 24% aðspurðra að þeir myndu dreifa eignum sínum til að komast hjá hærri sköttum. Um 70% þátttakenda sögðust áætla að gefa meira til góðgerðarmála. Um 27% þeirra sögðust hafa gefið meira en 25 þúsund dali til góðgerðarmála á árinu 2010.

Barack Obama og Warren Buffett ræðast við í Hvíta húsinu.
Barack Obama og Warren Buffett ræðast við í Hvíta húsinu.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Barack Obama og Warren Buffett ræðast við í Hvíta húsinu.