Sex þingmenn úr Framsóknarflokknum og Bjartri framtíð hafa lagt fram lagafrumvarp sem beinist að því að veita föngum rétt til að fá atvinnuleysisbætur, séu ákveðin skilyrði uppfyllt. RÚV greinir frá.

Meðal skilyrðanna er að fangarnir hafi stundað nám, vinnu eða starfsþjálfun á meðan afplánun stóð, en frumvarpið var lagt fram í fyrra og náði þá ekki fram að ganga. Hafa svipuð frumvörp áður verið lögð fram á þingi en ekki fengið hljómgrunn.

Þeir sem að baki frumvarpinu standa vísa til þess að föngum bjóðist almennt ekki launuð vinna á meðan þeir afplána dóm sinn. Því falli þeir utan atvinnuleysistryggingakerfisins. Hins vegar er sú undanþága fyrir hendi að fangar geta geymt áunna atvinnuleysistryggingu þar til þeir hafa lokið afplánun refsingar.

Í greinagerð þingmannanna kemur hins vegar fram að ákveðið nái einungis til minni hluta fanga, þar sem fæstir þeirra hafi stundað reglubundna vinnu áður en afplánun hófst. Því standa þeir utan bótakerfisins þegar afplánun er lokið.

„ Að mati flutningsmanna eykur það líkur á því að þeir brjóti á ný af sér og stríðir þannig gegn því markmiði refsivörslukerfisins að vinna gegn afbrotum og hjálpa einstaklingum sem hafa brotið af sér að snúa við blaðinu," segir í greinargerð þingmannanna sex. Því sé betra að fangar geti áunnið sér rétt til atvinnuleysisbóta með því að uppfylla eitt af áðurnefndum skilyrðum á meðan þeir sæta fangelsisvist.