Jón Haukur Baldvinsson, veitingamaður og rekstrarstjóri SSP á Íslandi, segist hæstánægður með þau viðbrögð sem viðskiptavinir hafi sýnt nýjasta veitingastað Keflavíkurflugvallar. Hann segist hafa staðið vaktina frá opnun og hefur verið duglegur að spjalla við viðskiptavini.

Veitingastaðurinn Elda Bistro opnaði um helgina á annarri hæð í norðurbyggingu Keflavíkurflugvallar, beint á móti útganginum úr Fríhöfninni. Staðurinn er rekinn af SSP Group, sem reka veitingarými á flugvöllum í 36 löndum. Jón Haukur var nýlega ráðinn rekstrarstjóri SSP á Íslandi en hann hefur meðal annars unnið hjá Icelandair, Coca-Cola og Jamie Oliver.

„SSP eru að koma hingað til langs tíma, þannig við vildum vera samkeppnishæfir í verðum og verðin hafa einmitt komið mörgum á óvart.“

Jón segir viðbrögðin við matnum einnig hafa verið mjög góð en Elda býður upp á bæði morgunmat og aðra heita rétti. Veitingastaðurinn kemur svo til með að opna Ísey skyr bar í næstu viku.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Fjöldi manns hefur þegar komið til mín og sagt þetta vera besti morgunmatur sem þeir hafa fengið á ævinni. Við gerum til dæmis Eggs Benedikt, pönnukökur með bláberjum og morgunverða-platta. Fólk hefur líka verið mjög ánægt með hamborgarana okkar.“

Að sögn Jóns þá hefur helsta vandamál Keflavíkurflugvallar alltaf verið að veitingastaðirnir hafi margir verið svokallaðir „grab-and-go“ staðir og það sé markmið flugvallarins að fólk komi fyrr og njóti sín fyrir flug. Meðaleyðsla á hvern farþega á flugvelli í mat og drykk er til að mynda minni á Íslandi en annars staðar og segir Jón það vera út af vöruúrvali og skort á fleiri veitingastöðum en það sé hins vegar nú að breytast.

„Markmiðið er að fólk geti komið fyrr út á flugvöll og notið sín fyrir ferðalagið. Það er ekki lengur bara að fólk mæti í röð og sest svo með hamborgara í bréfi. En þetta er bara eins og ég hef alltaf sagt í þessum veitingageira og það er að ef maturinn er góður þá er hægt að laga allt hitt,“ segir Jón.