Atvinnu- og menningarnefnd Fljótsdalshéraðs hefur krafist þess að verðá flugvélaeldsneyti verði það sama um allt land. Greint er frá þessu í Fréttablaðinu .

„Eins og staðan er nú er þar verulegur munur á og samkeppnishamlandi fyrir Egilsstaðaflugvöll,“ segir Þór Ragnarsson frá Ferðaskrifstofu Austurlands í samtali við Fréttablaðið. Hann segir allt að 35 til 40 prósent dýrara að fylla á vélina á Egilsstöðum en annars staðar. „Þetta gerir það að verkum að við getum til dæmis ekki stofnað flugfélag.“

Guðmundur Sveinsson Kröyer, formaður atvinnuveganefndarinnar, segir að dýrasta flugvélaeldsneytið sé á Egilsstöðum þar sem verðið á eldsneytinu sé ekki flutningsjafnað. Sama verð sé á eldsneyti fyrir bíla um land allt, en því sé ekki að heilsa með flugvélaeldsneyti.