Slitastjórn Glitnis hefur höfðað mál gegn Hannesi Smárasyni, fyrrverandi forstjóra FL Group. Slitastjórnin vill láta reyna á sjálfsskuldarábyrgðar Hannesar fyrir láni upp á rúma 2,4 milljarða króna sem félag hans Primus, síðar FI fjárfestingar, fékk hjá Glitni í desember árið 2007. Þak var á sjálfskuldarábyrgðinni. Fari svo að Hannes tapi málinu þarf hann að greiða slitastjórninni 400 milljónir króna ásamt dráttarvöxtum frá 31. ágúst árið 2009 og áföllnum kostnaði.

Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur 7. nóvember næstkomandi.

Liður í stærra máli

Málið var upphaflega liður í máli skilanefndar Glitnis sem höfðað var gegn Hannesi og félögunum FI fjárfestingum, Hlíðarsmára 6 og ELL 49 í desember árið 2009. Dómur féll í því í Héraðsdómi Reykjavíkur í febrúar í fyrra. Heildarlántökur félaganna frá Glitni sem undir voru í málinu námu tæpum 3,5 milljörðum króna.

Fram kemur í dómi héraðsdóm á sínum tíma að Hannes hafi að kröfu Glitnis undirgengist persónulega ábyrgð á hluta skuldanna, þ.e. 400 milljónum króna. Tekið er fram að ábyrgðin hafi ekki verið veitt í tengslum við lánveitingu heldur hafi verið um að ræða ábyrgð til tryggingar á skuldum sem áður hafði verið stofnað til.  Hafi krafan verið til komin vegna fallandi verðmætis hlutabréfa sem bankinn hafi fjármagnað fyrir félag Hannesar, FI fjárfestingar. Hannes hafi fallist á þetta og hafi forsendan verið sú að ábyrgðin yrði tímabundin og bundin tilteknum skilyrðum.

Ekki laus undan ábyrgðinni

Þá segir í dómnum, að frá upphafi hafi verið yfirlýst af hálfu Hannesar, að kæmi til þess að á ábyrgðina reyndi þá fengi hann að minnsta kosti  tveggja ára svigrúm, frá því að krafa yrði gerð á grundvelli ábyrgðarinnar, til að greiða hana.

Í dómnum segir jafnframt að sjálfskuldarábyrgðin skyldi gilda þótt greiðslufrestur yrði veittur á láninu, einu sinni eða oftar, uns lánið væri að fullu greitt.

Héraðsdómur sýknaði Hannes í fyrra. Hins vegar er tekið fram í niðurstöðu dómsins, að í málinu hafi ekki komið fram varnir, sem leysi hann undan sjálfskuldarábyrgðinni.