Fjórir þingmenn Framsóknarflokksins og einn úr Sjálfstæðisflokknum hafa lagt fram þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar verði endurskoðað.

Samkvæmt tillögunni er lagt til að íþrótta- og ungmennafélög verði að öllu leyti undanþegin virðisaukaskatti af starfsemi sinni. Einnig er lagt til að félögin hafi heimild til að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af byggingu íþróttamannvirkja á íþróttasvæðum sínum, vinnulaunum og efniskaupum.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að íþróttastarfsemi sé undanþegin virðisaukaskatti að nokkru leyti.

„Íþróttafélög innheimta engan útskatt af sölu sem lýtur að íþróttastarfsemi og fá því ekki dreginn frá innskatt vegna kaupa á aðföngum til starfseminnar,“ segir í greinargerðinni. „Öll sala íþróttafélaga á aðstöðu til æfinga og iðkunar íþrótta, þ.m.t. félagsgjöld og æfingagjöld, fellur undir undanþáguákvæðið. Ákvæði þetta hefur verið túlkað þannig að það taki til allrar sölu á aðstöðu til æfinga og iðkunar íþrótta, án tillits til þess hverjir reka slíka starfsemi.“

Í greinargerðinni segir að þrátt fyrir að íþróttafélög séu undanþegin virðisaukaskatti vegna íþróttastarfsemi sinnar þá séu  þau virðisaukaskattsskyld ef þau selja vörur eða virðisaukaskattsskylda þjónustu í atvinnuskyni eða í samkeppni við atvinnufyrirtæki.

„Í slíkum tilvikum ber íþróttafélögum því að innheimta útskatt af slíkri sölu og geta þá dregið frá innskatt af þeim aðföngum sem tengjast þeirri sölu. Til virðisaukaskattsskyldrar starfsemi teljast t.d. auglýsingasala, þ.m.t. svokallaðir „samstarfssamningar“, útgáfustarfsemi, rekstur verslunar, veitingasala og svo fjáraflanir ýmiss konar. Þá er til staðar virðisaukaskattsskylda af eigin þjónustu, svo sem rekstur þvottahúss o.s.frv," segir í greinargerðinni.

Í þingsályktunartillögunni er greint frá því að árði 2009 hafi verið gerð breyting á lögum um virðisaukaskatt um 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna vegna byggingar húsnæðis, þ.m.t. frístundahúsnæðis.

„Þessi lög giltu upphaflega til loka árs 2011 en voru svo framlengd, nú síðast um eitt ár, við samþykkt fjárlaga og frumvarps til laga um tekjuaðgerðir til fjárlaga 2014 og gilda þannig til ársloka 2014. Krafan hér er sú að til viðbótar þessari endurgreiðsluheimild á vinnuþáttinn fái íþróttafélög jafnframt heimild til þess að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af öllum efniskaupum til byggingar íþróttamannvirkja á sínu starfssvæði.“

Flutningsmenn tillögunnar eru framsóknarþingmennirnir Willum Þór Þórsson, Páll Jóhann Pálsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Haraldur Einarsson. Sjálfstæðismaðurinn Ásmundur Friðriksson er einnig meðal flutningsmanna.