Landsbankinn vill að breski fjárfestirinn Kevin Stanford greiði rúman einn milljarð króna af lánum sem félagið Materia Invest fékk hjá bankanum. Hann átti 33% hlut í félaginu á móti þeim Magnúsi Ármann og Þorsteini M. Jónssyni, sem löngum hefur verið kenndur við Kók. Materia Invest var stór hluthafi í FL Group og átti auk þess hluti í öðrum félögum.

Skuldir Materia Invest við viðskiptabanka félagsins, sem voru að mestu tilkomnar vegna kaupa á hlutabréfum FL Group, stóðu í 20,6 milljörðum króna samkvæmt síðasta birta ársreikningi félagsins fyrir uppgjörsárið 2010. Eigið féð var á sama tíma neikvætt um tæpan 24,1 milljarð. Veð fyrir lánum voru hlutabréfin í FL Group og aðrar eignir.

Um er að ræða þrjá lánasamninga og hljóðar persónuleg ábyrgð Stanfords rúmum einum milljarði króna, samkvæmt kröfu Landsbankans.

Þetta er önnur krafan á hendur Stanford. Hann, Magnús og Þorsteinn voru dæmdir til þess í byrjun síðasta árs að greiða Arion banka 240 milljónir króna hver vegna ábyrgðar á 4,2 milljarða króna láni sem Kaupþing veitti Materia Invest árið 2005. Þorsteinn seldi hlut sinn í Vífilfelli árið 2011 og gerði hann upp skuldir sínar og félaga honum tengdum gagnvart bankanum.

Verðmæti bréfa Materia Invest í FL Group á sama tíma og lánasamningurinn var gerður árið 2005 námu 5,9 milljörðum króna. Lánið var á gjalddaga árið 2008. Undir lok sama árs voru hlutabréfin í FL Group og aðrar eignir Materia Invest hins vegar metin verðlaus.

Materia Invest var úrskurðað gjaldþrota í september í fyrra.