Bandaríkin hvetja Kína til að reyna að örva innlenda neyslu frekar en að treysta á útflutning til að viðhalda hagvexti. Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, segir slíkt nauðsynlegt svo Kínverjar geti viðhaldið hagvextinum til lengri tíma litið.

Kínverjar, sem eru næst stærsta hagkerfi heims, reiða sig verulega á útflutning. Samdráttur síðustu ára hefur því haft áhrif á stöðu þeirra. Geithner hóf fund Bandaríkjanna og Kína með áherslu á mikilvægi þess að kínversk yfirvöld, líkt og forverar þeirra fyrir 30 árum, gerðu sér grein fyrir mikilvægi nýrrar stefnu í hagstjórninni. Hann sagði það ekki aðeins mikilvægt fyrir Kínverja heldur einnig Bandaríkin og önnur ríki víða um heim. Þetta kom fram á vef breska ríkisútvarpsins BBC.

Geithner ræddi einnig mikilvægi þess að Kínverjar leyfðu gengi gjaldmiðils síns að styrkjast. Jenið hefur styrkst um tæp 8% gagnvart dollaranum á síðustu tveimur árum. Bandarísk yfirvöld vilja þó enn meina að gengið sé of lágt.