Mælt er til þess að kjararáð ákveði hvort greiða skuli einstökum þingmönnum álag á þingfararkaup vegna sérstakra starfa þeirra á vegum Alþingis og mæli fyrir um upphæðina, samkvæmt frumvarpi um málið sem leggja á fyrir á Alþingi í dag. Mörður Árnason er skráður flutningsmaður frumvarpsins.

Í dag er kveðið á um það í lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað að greiða skuli sérstakt álag forsætisnefndarmönnum, þingflokksformönnum, formönnum nefnda og formönnum stjórnmálaflokka utan ríkisstjórnar. Sömuleiðis er heimilt að hækka greiðslurnar. Þingfararkaup þingmanna er í dag 610.194 krónur.

Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, að með samþykkt frumvarpsins yrðu launamál þingmanna að fullu úr höndum þeirra og yrði það sérstök ákvörðun kjararáðs hvort tíðka skuki slíkar álagsgreiðslur og þá fyrir hvaða störf.

Þá er rifjað upp í greinargerðinni að í sambærilegu frumvarpi sem lagt var fram á síðasta þingi var miðað við að slík greiðsla nemi ekki meira en 15% af þingfararkaupi til hvers þingmanns. Nú geti alþingismaður sem bæði situr í forsætisnefnd og gegnir formannsstörfum í þingflokki eða formennsku, eða 1. eða 2. varaformennsku, fengið tvöfalt álag ef hann æskir þess. Í því frumvarpi sem nú er flutt er fallið frá þessu. Gert er ráð fyrir að kjararáð meti einnig önnur þau störf en þau sem nú þykja álagsverð.

Mörður og Valgerður Bjarnadóttir fluttu málið á síðustu tveimur þingum. Við hópinn hafa bæst Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari, Skúli Helgason, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Lúðvík Geirsson, Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Guðmundur Steingrímsson og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.