Mikilvægt er að fyrirhuguð lagasetning, sem ætlað er að takmarka áhættu innistæðueigenda og ríkissjóðs af fjárfestingarbankastarfsemi, nái einnig yfir Kviku banka. Þetta er mat stóru íslensku viðskiptabankanna; Arion banka, Landsbankans og Íslandsbanka. Fréttablaðið greinir frá þessu.

„Það er óhætt að fullyrða að það sé háskaleikur að skapa slíkt ójafnvægi á innlendum fjármálamarkaði, skekkja samkeppnisstöðu og skapa um leið nýjan freistnivanda. Slíkt fyrirkomulag á sér enga fyrirmynd erlendis frá," segir Arion banki í umsögn sinni um áformin.

Áform um ný lög hafa verið birt af Fjármálaráðuneytinu og byggja þau á tillögu í hvítbók um framtíðarsýn fyrir íslenska fjármálakerfið. Stendur til að takmarka stöðutöku bankanna á þann veg að eiginfjárþörf vegna hennar megi ekki vera umfram 15% af eiginfjárgrunni þeirra. Þannig er lagasetningunni ætlað að takmarka innstæðueigenda og ríkissjóðs af fjárfestingarbankastarfsemi viðskiptabankanna. Áformin gera þó ráð fyrir að lögin yrðu takmörkuð við kerfislega mikilvægar innlánsstofnanir og fellur Kvika ekki í þann flokk.

„Miðað við kynnt áform mun sá viðskiptabanki sem sker sig úr hvað varðar hátt hlutfall fjárfestingarstarfsemi vera undanskilinn reglunum en eins og kunnugt er hefur sá sami banki verið í mikilli sókn við söfnun innlána. Skoða þarf vandlega hvort ekki sé verið að skapa nýja áhættu með slíkri nálgun," segir jafnframt í umsögn Arion banka.