Landsbanka-mál embættis sérstaks saksóknara sem lýtur að meintri markaðsmisnotkun í Landsbankanum í aðdraganda hruns verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þar verður m.a. ákvörðun um nokkrar bókanir sem lagðar voru fram við þingfestingu málsins í apríl, mótmæli verjenda þeirra sex fyrrverandi stjórnenda gamla Landsbankans sem ákærðir eru í málinu, s.s. er lutu að álitsgerðum danskra sérfræðinga. Þá gerðu þeir sömuleiðis kröfu um að málinu verði skipt upp eftir aðilum málsins og það ekki flutt í einu lagi. Verði farið að síðasttöldu kröfunni gæti málið orðið að þremur málum.

Þeir sex sem ákærðir eru í málinu eru Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri gamla Landsbankans, Ívar Guðjónsson, forstöðumaður eigin viðskipta Landsbankans, Elín Sigfúsdóttir, sem þá var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, og þeir Steinþór Gunnarsson, framkvæmdastjóri verðbréfamiðlunar bankans, og miðlarinn Sindri Sveinsson.

Lánuðu níu milljarða til hlutabréfakaupa

Málið varðar níu milljarða króna lánveitingar til félaganna Ímon og Azalea Resources Ltd í tengslum við kaup þeirra á hlutabréfum í bankanum. Ímon var í eigu fjárfestisins Magnúsar Ármann en Azalea Resources skráð á bresku Bresku Jómfrúreyjum og í eigu finnska fjárfestisins Ari Salmivuori, viðskiptafélaga Björgólfs Thors Björgólfssonar, eins af helstu hluthöfum gamla Landsbankans og sonar Björgólfs Guðmundssonar, formanns bankaráðs bankans. Félag Salmivuori fékk 3,8 milljarða króna 3. október 2008 til kaupa á hlutabréfum Landsbankans en Magnúsar það sem út af stóð. Grunur leikur á að um sýndarviðskipti hafi verið að ræða og að ætlunin með kaupunum hafi verið að hafa óeðlileg áhrif á gengi hlutabréfa í bankanum. Ef það var raunin myndi það flokkast sem markaðsmisnotkun og þar af leiðandi lögbrot sem varðað getur allt að sex ára fangelsi.

Líklegt þykir að niðurstaða Hæstaréttar í Kaupþings-málinu svokallaða sem er sambærilegt verði höfð til hliðarsjónar í málinu nú. Niðurstaða Hæstaréttar var á þann veg að álitsgerðirnar dönsku voru skildar frá framlögðum gögnum.