Slitastjórn Glitnis hefur lagt fram kröfu um að þeir Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, og Guðmundur Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, greiði 102 milljónir evra, jafnvirði tæpra 16 milljarða króna, í bætur vegna Vafningsmálsins svokallaða. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að fjárhæðin er til jafns við þá upphæð sem Glitnis lánaði Milestone í byrjun febrúar árið 2008. Þeir Lárus og Guðmundur hlutu á milli jóla og nýárs níu mánaða fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir stórfelld umboðssvik í tengslum við málið. Saksóknari hafði krafðist fimm og hálfs árs fangelsis yfir Lárusi en fimm ára dómi yfir Guðmundi.

Í blaðinu segir að skaðabótamálið hafi verið höfðað í mars í fyrra en verið í biðstöðu mánuðum saman á meðan sakamál sérstaks saksóknara vegna sömu viðskipta var rekið fyrir dómstólum. Eftir að dómur féll í Vafningsmálinu fór skaðabótamálið af stað aftur og hafa þeir Lárus og Guðmundur skilað greinargerðum í því. Málið er komið á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur á nýjan leik. Hins vegar er tekið fram að dómnum í Vafningsmálinu var áfrýjað til Hæstaréttar. Verði honum snúið sé óvíst hvað verði um skaðabótamálið.