Samstarfshópur um eftirfylgni og áhrif gengislánadóms Hæstaréttar sem féll um miðjan mánuðinn ætlar að fá tvo lögfræðinga til að rýna í álit lögmannsstofunnar Lex á dóminum. Lögmenn Lex hafa þegar fundað með hópnum og kynnt álit sitt fyrir honum.

Samstarfshópurinn hefur fundað á bilinu tvisvar til þrisvar.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið setti hópinn á laggirnar skömmu eftir að gengislánadómur Hæstaréttar féll. Í honum eiga sæti m.a. tveir fulltrúar frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, Samtökum fjármálafyrirtækja og Fjármálaeftirlitinu. Þóra M. Hjaltested, skrifstofustjóri efnahags- og viðskiptaráðuneytis, er formaður samstarfshópsins. Hópurinn á m.a. að safna gögnum um gengislánadóminn og áhrif hans.

Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, fjallaði um samstarfshópinn og vinnu hans á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

Fjármálaeftirlitið hefur veitt bönkunum frest til 15. mars næstkomandi til að meta áhrif dómsins á bankana og þýðingu hans fyrir þá.