Mitch McConnell, leiðtogi meirihluta repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings, segir að nýr forseti, en ekki Barack Obama, eigi að tilnefna nýjan dómara við hæstarétt Bandaríkjanna. Barack Obama segir hins vegar að hann muni tilnefna nýjan dómara innan tíðar.

Hæstaréttardómarinn Antonin Scalia lést um helgina. Samkvæmt stjórnarskrá Bandaríkjanna þýðir það að forsetinn á að velja nýjan dómara, en hann þarf að hljóta samþykki öldungadeildar Bandaríkjaþings.

Níu dómarar sitja í hæstarétti Bandaríkjanna. Í mörgum umdeildum málum, meðal annars í tengslum við hjónabönd samkynhneigðra, hefur verið mjótt á munum í úrskurði réttarins. Hefð er fyrir því að forsetar tilnefni hæstaréttardómara sem hafa svipaða hugmyndafræðilega afstöðu og þeir sjálfir. Því getur skipt miklu máli hvaða forseti tilnefnir næsta dómara því það mun hafa áhrif á valdahlutföllin innan réttarins.

Hörð pólitísk barátta framundan

Í kappræðum í gær sagði Donald Trump að það væri undir McConnell komið að koma í veg fyrir að sá sem Obama tilnefnir verði skipaður dómari. Ted Cruz sagði hins vegar að ef Trump væri forseti myndi hann tilnefna frjálslynda dómara (e. liberals).

Harry Reid, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, varar hins vegar við tilraunum til að hindra tilnefningu Obama. Hann segir að slíkar tilraunir myndu vera skammarlegar og andstæðar stjórnarskránni.

Lengst hafa liðið 125 dagar frá því að sæti í hæstarétti Bandaríkjanna losnar og þangað til nýr dómari er skipaður. Það er minna en helmingur þess tíma sem Obama á eftir í embætti.