Sex þingmenn Samfylkingarinnar segja í frumvarpi sem leggja á fram á Alþingi segja samfélagið hafa tekið breytingum og vilja að orlofsnefnd húsmæðra verði lögð niður. Til bráðabirgða er mælt fyrir því að sveitarfélag geti heimilað orlofsnefnd að starfa áfram til 1. maí á næsta ári sé rekstarfré í sjóðum nefndarinnar. Ef fé er til í sjóðum nefndarinnar þegar hún lýkur störfum er mælt með því að það renni til þess sveitarfélags sem lagði það fram. Í frumvarpinu segir að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan húsmæðraorlof var upphaflega fært í lög, margt áunnist í jafnréttisbaráttu og barnauppeldi nú sameiginlega á ábyrgð beggja foreldra. Á þeim heimilum þar sem einungis annað foreldri vinnur utan heimilis eru mun meiri líkur en áður var á því að feðurnir kjósi að sinna börnum og búi.

Í frumvarpinu sem útbýtt var í dag segir að orlof húsmæðra eigi sér langa forsöku en fyrsta ríkisstyrkta húsmæðraorlofið kom til framkvæmda árið 1958 þegar sérstök fjárveiting var samþykkt vegna orlofs og sumardvalar húsmæðra frá barnmörgum heimilum. Þá hafði reyndar verið talað fyrir slíku orlofi síðan 1944. Árið 1960 voru lögfest lög um orlof húsmæðra og heildarlög sett árið 1972. Þeim hefur nokkrum sinnum verið breytt, síðast árið 2011.

Í frumvarpinu segir um húsmæðraorlofið:

„Tilgangur laganna var að lögfesta viðurkenningu á þjóðfélagslegu mikilvægi ólaunaðra starfa og veita húsmæðrum orlofsréttindi líkt og launþegum. Lögin gerðu því ráð fyrir því að ríkissjóður og sveitarfélög veittu fé til orlofsnefnda sem skipulegðu orlof húsmæðra. [...] Þar sem húsmæður fá engin laun fyrir störf sín, m.a. við að ala upp næstu kynslóð, væri það verðug viðurkenning af hálfu þjóðfélagsins, að í fjárlögum væru ætlaðar a.m.k. kr. 100,00 á ári fyrir hverja húsmóður í landinu, í því skyni að gefa nokkrum hluta þeirra kost á orlofi og hvíld frá störfum.“

Frumvarpið um afnám húsmæðraorlofs