Meirihluti Dana vil að reykingapásur starfsmanna á vinnustöðum séu ekki taldar með þegar metið er hversu lengi viðkomandi hefur verið í vinnunni þann daginn. Þetta kemur fram á vef danska ríkisútvarpsins.

Það hefur það óhjákvæmilega í för með sér að til að uppfylla kvaðir um fjölda vinnustunda ættu reykingamenn að vera lengur í vinnunni en þeir sem ekki reykja. Þetta kemur fram í könnun sem vinnuveitendasamtökin Dansk Erhverv gerðu fyrir skemmstu.

Spurt var hvort viðkomandi teldi að reykingapásur ættu að teljast til vinnutíma. 52 prósent svaraði neitandi en 37 prósent játandi. Þá var einnig spurt hvort viðkomandi teldi að reykingamenn tækju sér fleiri pásur frá vinnu en þeir sem ekki reyktu. 53 prósent töldu svo vera, en 47 prósent sögðu að svo væri ekki.

Reykingapásur koma niður á þeim sem ekki reykja

Rikke Bregendahl, aðstoðarframkvæmdastjóri Dansk Erhverv, segir að fjöldi fólks sé ósátt við það að þurfa að hlaupa undir bagga með reykingamönnum á meðan þeir taka sér pásur til að reykja. Þá fer það einnig fyrir brjóstið á sumum að reykingamenn fái meiri frítíma en þeir sem ekki reykja.

Fjöldi danskra fyrirtækja hefur á seinustu árum bannað reykingar á lóð fyrirtækisins. Slíkt bann gerir reykingafólki erfiðara fyrir en það þarf þá óhjákvæmilega að fara af lóðinni á meðan reykt er. Tóbaks- og áfengisneysla Dana hefur dregist nokkuð saman á síðustu árum .