Þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að auka framboð og neyslu grænkerafæðis (e. vegan). Lagt er til að forsætisráðherra skipi nefnd með helstu fag- og hagsmunaaðilum sem hafi það hlutverk að undirbúa markvissar aðgerðir til að auka framboð og neyslu grænkerafæðis. Nefndin beri svo að skila tillögum sínum sex mánuðum síðar.

Í greinargerð tillögunar segir að hið opinbera hafi margs konar skyldur að gegna þegar kemur að framboði og eftirspurn eftir matvælum. Meðal annars sé það gert með búvörusamningnum, fræðslu um neyslu matvæla, bættu heilsufari og lýðheilsu ásamt innkaupum á fæði í skólum, stofnunum og fyrirtækjum. Einnig gegni stjórnvöld lykilhlutverki þegar kemur að dýravelferð, aðgerðum gegn hamfarahlýnun, loftslagsbreytingum og allri auðlindanýtingu í landinu.

Að mati þingmanna Samfylkingarinnar er brýn þörf fyrir hið opinbera að skoða þessi mál heildstætt með það að markmiði auka bæði framboð og valfrelsi neytenda „en einnig neyslu á grænkerafæði“.

Vitnað er í skýrslu um loftlagsbreytingar frá milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna þar sem fram kemur að 26% allrar losunar gróðurhúsalofttegunda megi rekja til matvælaframleiðslu. Af losun af matvælaframleiðslu eru um 58% vegna dýraafurða. Því sé nauðsynlegt að draga úr neyslu dýraafurða.

Einnig fylgi innfluttum matvælum í mörgum tilvikum stórt kolefnisspor. Fyrir vikið telja flutningsmenn kjörið tækifæri að minnka það kolefnisspor með því að auka innlenda framleiðslu grænkerafæðis.

Þeir segja mikilvægt að leita leiða til að styðja við rekstrargrundvöll íslenskra garðyrkjufyrirtækja, m.a. með því að leitast við að lækka raforkukostnað til framleiðslu matvæla, tryggja aðgengi að heitu vatni, lækka tolla á innflutt aðföng og rekstrarvörur og auka lánafyrirgreiðslu.

„Þannig mætti bæta aðgengi að heilnæmu íslensku grænmeti og ávöxtum, samhliða því að auka fæðuöryggi og lækka kolefnisspor þeirra matvæla sem neytt er hér á landi. Flutningsmenn telja því mikilvægt að búvörusamningar framtíðarinnar taki mun meira mið af framleiðslu grænkerafæðis af öllu tagi en nú er gert.“

„Flutningsmenn vilja að lokum leggja áherslu á að þótt neytendur hafi valfrelsi þegar kemur að neyslu matvæla þá er hlutverk hins opinbera mikilvægt í þessum efnum. Aukin neysla grænkerafæðis hefur ýmsa kosti í för með sér og svarar kalli nútímans hvort sem litið er til loftslagsmála, dýravelferðar eða heilsufars,“ segir í lok greinargerðarinnar.