Ríkisstjórnin mun kanna hagkvæmni og möguleika þess að reisa sem fyrst áburðarverksmiðju í Helguvík eða í Þorlákshöfn, verði tillaga átta framsóknarþingmanna þess efnis að veruleika.

Í greinargerð með tillögunni, sem Þorsteinn Sæmundsson er fyrsti flutningsmaður að, segir að undanfarin ár hafi heimsmarkaðsverð á áburði hækkað umtalsvert, einkum vegna aukinna áburðarkaupa Kínverja og Indverja.

„Heimsmarkaðsverð áburðar náði hámarki árið 2008. Síðan hefur verðið lækkað nokkuð en er nú heldur hærra en fyrir árið 2006. Ljóst er að áburðarverð mun að öllum líkindum haldast hátt í næstu framtíð vegna aukinnar ræktunar matvæla sem nauðsyn er á til að brauðfæða síaukinn mannfjölda. Þannig kemur fram í nýlegri skýrslu OECD að auka þarf matvælaframleiðslu í heiminum um 50% næstu 20 ár,“ segir í þingsályktunartillögunni.

Í greinargerðinni segir einnig að hópur áhugamanna um byggingu áburðarverksmiðju hafi unnið frumáætlun um byggingu verksmiðju sem framleiða myndi 700 þúsund tonn af áburði og 700 þúsund tonn af kalsíumklóríði. Gert sé ráð fyrir að 5–600 manns komi að byggingu verksmiðjunnar en að áburðarverksmiðjan skapi 150–200 hálaunuð framtíðarstörf, auk afleiddra starfa. Fjárfesting í verksmiðjunni muni nema rúmum 120 milljörðum króna samkvæmt áætlunum.

Áburðaverksmiðjan var stofnuð árið 1952 af ríkinu og fleiri aðilum. Árið 1969 keypti ríkið meðeigendur sína út og heitinu var breytt í Áburðaverksmiðju ríkisins. Áburðaverksmiðjan var svo seld til einkaaðila árið 1999.