Þrír þingmenn Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Elsa Lára Arnardóttir og Gunnar Bragi Sveinsson, lögðu fram tillögu til þingsályktunar fyrir helgi um nýtingu forkaupsréttar ríkisins að hlutabréfum í Arion banka.

Eins og áður hefur komið fram var tilkynnt um kaup sjóðanna Taconic Capital, Attestor Capital og Och-Ziff Capital auk Goldman Sachs á 29% eignarhlut í Arion banka. Íslenska ríkið á 13% hlut í bankanum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrum forsætisráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins, segir að kaup útlendinga á hlut í bankanum nú í mars verði að meta í ljósi niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis um blekkingar við kaup á Búnaðarbankanum, að því er kemur fram í frétt Ríkisútvarpsins um málið.

„Frekar en að menn missi þetta til einhverra vogunarsjóða sem við vitum ekkert hvernig ætla að fara með bankann, en eru kannski ólíklegir til þess að vilja standa hér í bankarekstri til framtíðar, þá sé bara betra að ríkið yfirtaki þetta um tíma og noti þá tækifærið til að klára þá vinnu sem var ókláruð við endurskipulagningu fjármálakerfisins,“ er haft eftir Sigmundi í fréttinni.

„Sem varúðarráðstöfun var þó sett ákvæði um að ef hlutur í bankanum yrði seldur á lægra verði en sem næmi 80% af eigin fé bankans gæti ríkið neytt forkaupsréttar. Auk þess fékk ríkið heimild til að yfirtaka bankann yrði hann ekki seldur fyrir mitt ár 2018.

Nú hefur Kaupþing ákveðið að selja stærstu eigendum sínum hátt í þriðjungs hlut í bankanum fyrir um 80% af verðmæti hlutafjár bankans samkvæmt milliuppgjöri þriðja ársfjórðungs 2016. Með hliðsjón af hagnaði bankans undanfarin ár, umtalsverðu eigin fé umfram lögbundin mörk og þeirri staðreynd að um er að ræða banka sem samansettur var úr betri eignum Kaupþings banka hlýtur verð sem er lægra en nemur eigin fé að teljast lágt. Auk þess er um að ræða lægsta hugsanlega verð yfir því verði sem virkjar forkaupsrétt ríkisins. Af því má álykta að salan sé framkvæmd til að koma í veg fyrir að ríkið fái eðlilega hlutdeild í raunverulegu verðmæti bankans og hindra að ríkið geti leyst bankann til sín á næsta ári,“ segir í þingsályktunartillögunni.